Fréttir

Fasteignamat í Flatey – ótrúleg hækkun milli ára

Sumardagur_i_Flatey_AG_2012_litur

Í aðsendri grein frá Gunnari Sveinssyni er fjallað um hækkun fasteignamats og lóðamats  í Flatey og því samfara allt að 345% hækkun fasteignagjalda milli ár (meðalhækkun er 135%).

Flestum varð þessi mikla hækkun ekki ljós fyrr en fyrstu fasteignaskattseðlarnir bárust núna fljótlega eftir áramót.  Við lestur þessara seðla héldu flestir að hér væri verið að rukka fyrir árið í heild en svo var alls ekki að heilsa.  Svar sveitarstjóra Reykhólahrepps var að þessi mikla hækkun stafaði af verulegri hækkun fasteignamats og lóðamats í Flatey og rétt væri að tala við "sérfræðinga fyrir Sunnan" hjá fasteignamatinu hjá Þjóðskrá Íslands.

Ég hef nú tekið saman yfirlit yfir allar fasteignir í Flatey og þá kemur þessi ótrúlega staðreynd skýrlega í ljós.  Reyndar er ýmislegt undarlegt við skráningu húsa í Flatey gagnvart fasteignamatinu og Þjóðskrá en alls eru 43 fasteignir með fasteignamat í Flatey þ.a. eru 25 hús skráð sem sumarhús á sumarhúsalóð, 10 eru skráð sem einbýlishús, parhús eða sumarhús á íbúðarhúsalóð eða viðskipta- og þjónustulóð og 8 skráð undir ýmislegt s.s bátaskýli, bókhlaða, kirkja, fiskverkunarhús, gistihús eða jörð í ábúð) á lóð undir viðskipta- þjónustu- eða iðnaðarlóð.

Þegar þetta er skoðað enn frekar kemur í ljós að þessi 25 sumarhús fá 75% – 345% hækkun fasteignamats eða að meðaltali 135% og lóðamatið hækkar um 277% – 806% eða að meðaltali 523%.  Það undarlega í þessu er að hin 18 húsin taka aðeins 7-21% hækkun fasteignamats og 0-24% hækkun lóðamats.  Heildar fasteignamat í Flatey er nú fyrir 2018  549,4 milljón (2017 286,3 millj), lóðamat 64,9 milljón (2017 16,1 millj) og brunabótamat 1.131,9 milljón (1.076,1 millj.) en fermetrafjöldi (m2) fasteigna í Flatey er 5.414,7 m2 sem þýðir að meðaltali er sérhver fermetri metinn á rúmlega 101 þúsund krónur.  Þetta þýðir að fasteignaskattur þessara 25 húsa hækkar um 135% og lóðaeiga um 523%.  Hin 18 húsin fá aðeins 13% hækkun fasteignaskatts og 16% lóðaleigu. Í ljósi þessarar miklu hækkunar hefur Eyjólfshús farið fram á endurmat á fasteignamati og lóðamati undir Eyjólfshús.  Vonast er til að niðurstöður þessa endurmats liggi fyrir fljótlega. Ég ráðlegg öllum húseigendum húsa er taka svona mikla hækkun að fara fram á endurmat.  Slóðin er; https://www.skra.is/umsoknir/eydublod-umsoknir-og-vottord/stok-vara/?productid=fbb49cfd-3e0b-11e6-943e-005056851dd2 Þegar komið er að eyðublaðinu þá þarf að fara inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

Þegar sérfræðingar fasteigamats hjá Þjóðskrá voru krafðir skýringa á þessari ótrúlegri hækkun fasteignamats og lóðamats var skýringin þessi; Síðastliðið sumar var verið að breyta aðferðafræðinni við útreikninga á fasteignamati úr framreikningi á fyrra mati yfir í skilvirkt mat er tæki mið af gangverði samkvæmt kaupsamningum á fasteignum er seldar eru á markaði og átti þetta við landið allt.  Sérfræðingum fasteignamatsins var bent á að fasteignir í Flatey eru alls ekki að ganga kaupum og sölum og þ.a.l. er enginn skilvirkur kaup/sölumarkaður húsa til fyrir Flatey.  Svar þeirra við þessari staðreynd var sú að þá væri gripið til "viðmiðunarsvæða" á nálægum svæðum með breytingarstuðlum + eða – þegar kæmi til ákvörðunar á fasteignamati á þessum jaðarsvæðum.  Greinilega er að "sérfræðingarnir fyrir Sunnan" hafa hér skotið hressilega yfir markið og viðurkenndu þeir það og rétt væri að skoða fasteignarmat og lóðamat fyrir Flatey alveg upp á nýtt.

Þessi mikla hækkun fasteignamats og lóðamats þýðir auðvitað ótrúlega hækkun fasteignaskatts og lóðaleigu fyrir húseigendur í Flatey.  Fyrir Eyjólfshús þýðir þetta 143% hækkun fasteignaskatts og 515% hækkun lóðaleigu.  Heildar fasteignaskattur fyrir Flatey fer úr 1.4 milljón upp í 2,73 milljónir og lóðaleiga úr 641 þús. upp í 2,6 milljónir.  Samtals er þetta 3,2 milljón viðbótartekjur fyrir sveitarfélagið. Það er ekki nema von að sveitarstjóri Reykhólahrepps sé ánægður með sérfræðinga fyrir sunnan.

Þetta leið hugann af öðru sem reyndar var búið að spyrja sveitarstjórn og sveitarstjóra um á fundi í Flatey sumarið 2016 en þá harðneituðu þau að svara þessari spurningu eða gefa upplýsingar.  Spurningin var þessi "Hvað hefur sveitarfélagið í tekjur af Flatey?",  þessari perlu sem þau vilja endilega hafa í sinni umsjón. Svar við þessari spurningu er þegar rýnt hefur verið í reikninga sveitarfélagsins og ýmsir tekjuliðir áætlaðir að heildartekjur Reykhólahrepps er um ca. 10 til 11 milljónir af Flatey.  Fasteignaskattur og lóðaleiga er 5,3 milljónir, sorpgjald 668 þús, útsvar, skattur af gististarfsemi, veitingarekstri, útgerð og veiðum og ýmsar aðrar tekjur eru ca. 4 – 5 milljónir.  Á móti kemur sorphirða og flutningur á sorpgámum með Baldri, tilfallandi styrkir til fundarhalda í Flatey og atburða á vegum FFF, rafmagnskostnaður við ljósastaura, hlutdeild í stjórnsýslukostnaði, kostnaður við gerð deiliskipulags í Flatey og annar tilfallandi kostnaður s.s brunadæla og brunahanar, gerð skýrslna og úttekta í Flatey (frárennslismál, húsakönnun, áhrif ágangs sjávar í Flatey) o.fl.  Á móti þessu hafa tekjur komið til hreppsins af lóðasölu í Flatey. Það skal tekið fram að álagsprósenta Reykhólahrepps fyrir fasteignaskatt er 0,5% (0,18% í Reykjavík) og 4,0% fyrir lóðaleigu (2,0% í Reykjavík)  Það má því með sanngirni segja að Flatey leggi umtalsverða fjármuni í sveitarsjóð Reykhólahrepps á hverju ári. Rétt er að taka fram í lokin að Reykhólahreppur fær 176 milljónir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2018 sem er 31,5% af heildartekjum sveitarfélagsins.

Með góðum kveðjum úr Flatey,
Gunnar í Eyjólfshúsi