Á síðasta aðalfundi FFF kom fram að Reykhólahreppur hyggst reisa brunaskýli í Flatey og hafa sex milljónir verið eyrnamerktar í þetta verkefni. Ráðgert er að reisa skýlið nú í vor eða sumar og viðræður eru í gangi við smið til að taka að sér verkið. Nú er verið að teikna skýlið sem fer í grenndarkynningu fljótlega. Staðsetning skýlis verður austan Ráðagerðis við göngustíginn niður að Innstapolli vestan Krákuvarar. Einnig hefur verið ráðinn starfsmaður í 100% starf til að sinna brunavörnum sameiginlega fyrir Reykhólahrepp, Dala- og Strandabyggð og unnið er að gerð brunavarnaráætlunar fyrir þetta svæði samkvæmt lögum þar um.
Komið hefur til tals hjá sveitastjórn Reykhólahrepps að Flateyjarveitur kæmu hugsanlega að brunavörnum í Flatey en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum enn. Vitað er að ýmislegt má betur fara í brunavörnum í Flatey sem kom í ljós m.a. við síðustu brunaæfingu sem og við kaup og geymsla á brunadælu utanhúss af hálfu hreppsins en einnig skortur á brunaáætlun og brunaslöngum fyrir Flatey. Allt er þetta til baga og beinlínis ámælisvert. FV mun ekki koma að þessum málum fyrr en allar staðreyndir liggja á borðinu s.s. bruna- og kostnaðaráætlun, ábyrgðir, vinnuframlag, samningur og skuldbindingar sveitarfélagsins í þessum efnum. Beðið er með ákvörðun í þessum efnum meðan vinna við gerð brunavararáætlun er í gangi hjá Reykhólahreppi, Dala- og Strandabyggð.
Vissulega hafa ýmsir í Flatey sýnt gott frumkvæði í þessum efnum s.s. Flateyjarveitur með uppsetningu sex brunahana við dreifikerfi sitt (Reykhólahreppur hefur greitt fyrir tvo af þessum sex), FFF að halda árlega brunaæfingu í samvinnu við Reykhólahrepp, Minjavernd að setja upp og kaupa brunaslöngu við hótelið og fjölmargir er hugað hafa vel að brunavörnum húsa sinna.
Eitt er það sem komið hefur ítrekað til umræðu þegar sveitarstjórn hefur átt fundi með Flateyingum en það eru brunavarnir húsa í Flatey. Hvernig er því háttað og hvað má gera betur í þeim efnum? Ráðgjafi Reykhólahrepps í brunavörnum, Guðmundur Ólafsson hefur lýst yfir vilja sínum að "taka út" sérhvert hús með tilliti til brunavarna og benda á atriði sem betur má fara. Í samtali sem ég átti við Guðmund s.l. sumar var komið inn á fjölmörg atriði í þessu sambandi. Vil ég nefna atriði eins og gerð brunavarnaráætlunar fyrir sérhvert hús, fjöldi handslökkvitækja og gerð þeirra (vatn,duft,kolsýra) í húsum, reykskynjarar og staðsetning þeirra, samtenging og árlegt eftirlit, flóttaleiðir í húsum, eldvarnarteppi og neyðarljós, brunastigar, gerð þeirra, staðsetning og aðgengi, umgjörð og eldtefjandi búnaður við olíukyndingar eða Sóló eldavélar. Guðmundur lýsti sig jafnframt reiðubúinn til að koma í Flatey og hjálpa húseigendum í þessum efnum. Verði þetta að veruleika má búast við að tryggingarfélögin verði til umræðu um lækkun iðgjalda á þessum sömu húsum er hafa allt í lagi gagnvart brunavörnum.
Hægt er að senda álit ykkar og skoðanir á netfangið gunnarsv@landspitali.is en síðar munu fleiri netföng bætast við til að senda á. Unnið er að því að koma þessum skoðanaskiptum einnig á heimasíðu FFF, FACEBOOK, Twitter og á aðra rafræna miðla sem Flateyingar nota að staðaldri.
Með góðum kveðjum úr Flatey
Gunnar í Eyjólfshúsi
gunnarsv@landspitali.is