Fréttir

Breytingar á rekstri Baldurs – Pétur og Svanborg kveðja

Gamli Baldur

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa Eimskip keypt rekstur Sæferða en félagið rekur ferjuna Baldur og útsýnisbátinn Særúnu. Við þessa breytingu fara þau hjónin Pétur Ágústsson og Svanborg Siggeirsdóttir út úr rekstrinum og skila góðu búi til nýrra eiganda. Heimasíða Framfarafélagsins veit að talað er fyrir hönd allra Flateyinga þegar þeim hjónum er þakkað fyrir góða þjónustu og velvild í garð heimamanna og sumarhúsaeiganda. Einnig ber að þakka fyrir aðkomu Sæferða við ýmis stór verkefni sem unnin hafa verið í Flatey síðustu ár, þar má nefna breytingar á vatnsmálum með flutningi vatns með Baldri á sumrin og raunsarlega styrki við gerð stíga í Flatey svo fátt eitt er nefnt.

Bréf Svanborgar og Péturs varðandi eigandaskiptin á Sæferðum:
Nú hafa mál skipast þannig hjá Sæferðum ehf. að sá dagur fer að renna upp að við hjónin látum af störfum fyrir fyrirtækið, bæði á sjó og í landi. Eini fyrirvarinn sem við höfum er að eitthvað komi mögulega upp á síðustu stundu varðandi yfirferð Samkeppnisstofnunar sem tefji málið.

Gert er ráð fyrir að síðasta ferð Baldurs í eigu núverandi eigenda verði miðvikudaginn 20. maí n.k. og er gert ráð fyrir að Pétur verði skipstjóri í þeirri ferð, sem þá um leið verði síðasta ferðin sem hann siglir skipinu sem fastráðinn skipstjóri á ferjunni Baldri yfir Breiðafjörð.

Við viljum nota tækifærið á þessum tímamótum og þakka þeim fjölmörgu sem við höfum kynnst og átt ánægjuleg samskipti við þau 30 ár sem eru liðin síðan við Svanborg og fleiri settum af stað þennan rekstur, en einnig eru nú liðin 14 ½ ár síðan við tókum við rekstri Baldurs. Þessi tími hefur verið okkur mjög ánægjulegur og leitt af sér fjölmörg vina- og kunningjasambönd sem seint verður fullþakkað fyrir.

Ef eitthvað er ósagt sem við áttum að klára gagnvart ykkur væri best að senda okkur orðsendingu á meilfangið pha@simnet.is  ( eftir 20. maí) en varðandi okkar mál hjá Sæferðum að þá er best að hafa samband við Maríu  maria@seatours.is  sem kemur málunum þá í réttar hendur.

Við erum þess fullviss að félagið mun áfram standa sig vel sem fyrr og að þjónustan verði jafnvel enn betri en okkur auðnaðist að  hafa hana.  Áfram verða í vinnu fyrir Sæferðir megnið af okkar góða starfsfólki og nýir eigendur hafa fullvissað okkur um að markmið þeirra sé áfram að bæta og auka þjónustuna við íbúa við Breiðafjörð  og á Vestfjörðum sem og alla aðra gesti.

Við eigum vissulega eftir að sakna þessa umhverfis og allra sem hafa verið okkur samferða á þessari leið þó við vonumst eftir að hitta sem flest ykkar í framtíðinni þó á öðrum vettvangi verði. 

Með þessum tilskrifum sendum við  ykkur öllum, samstarfsmönnum svo og öðrum, okkar bestu þakkir, alúðarkveðjur og góðar framtíðaróskir.

Pétur og Svanborg.