Fréttir

Ályktun vegna ferjubryggju í Flatey

logo fffnytt

Á aðalfundi Framfarafélags Flateyjar, sem haldinn var í Reykjavík 11.3.2017 var samþykkt neðangreind ályktun:

Aðalfundur Framfarafélags Flateyjar (FFF) 2017 skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, sveitarstjórn Reykhólahrepps og samgöngusvið Vegagerðarinnar að taka höndum saman og vinna að endurbótum ferjubryggjunnar í Flatey á Breiðafirði.
 
Undanfarin ár hefur ástand ferjubryggjunnar í Flatey versnað gífurlega og er nú svo komið að hluti bryggjunnar er stórskemmdur. Fulltrúar FFF hafa setið fundi með siglingasviði Vegagerðarinnar og sveitarstjórn til að ræða alvarlegt ástand hennar og komið á framfæri við starfsmenn Vegagerðarinnar upplýsingum s.s. myndum og myndböndum sem sýna lélegt ástand bryggjunnar. Þar að auki hefur sveitarstjórn Reykhólahrepps og útgerð ferjunnar Baldurs margoft bent á ástand bryggjunnar við Vegagerðina og þingmenn kjördæmisins.
 
Farþegafjöldi með ferjunni Baldri hefur aukist í takt við aukinn ferðamannastraum á Íslandi og álag á innviði eyjarinnar í réttu hlutfalli. Ferjan kemur allt að 4 sinnum að bryggju á dag yfir sumartímann en sjaldnar á veturna. Vegna bágs ástands ferjubryggjunnar treysta skipstjórnarmenn sér ekki til að leggja að í Flatey í ákveðnum veðurskilyrðum með þeim afleiðingum að oft falla farþegaflutningar og póstsamgöngur niður. Ekki er hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að verið er að leggja líf og limi fólks í hættu þar sem ástand bryggjunnar er algjörlega óviðunandi.
 
Rétt er að vekja athygli á að í all mörg ár hefur staðið til að gera gangskör í sjóvörnum í Flatey og hafa einhverjir fengist fjármunir til þess en ekkert verið gert í þeim málum. Samhliða hefur Reykhólahreppur skipulagt smábátahöfn sem myndi tengjast ferjubryggjunni í samvinnu við heimamenn og samgöngusvið Vegagerðinnar. Erfitt hefur verið að stunda veiðar og ferðamennsku út frá Flatey vegna lélegrar hafnaraðstöðu.
 
Ályktun FFF var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps þann 11. apríl síðast liðinn. Á þeim fundi samþykkti sveitarstjórn samhljóða að fela sveitarstjóra að semja yfirlýsingu til Innanríkisráðuneytisins þess efnis að sveitarfélagið sé reiðubúið að afsala sér formlega öllum hafnarmannvirkjum í Flatey og rekstri á höfninni í Flatey til Vegagerðarinnar. Fundargerð sveitastjórnar Reykhólahrepps má nálgast í heild sinni hér.
 
Stjórn FFF hefur óskað formlega eftir fundi með ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og bíður svara.