Fréttir

Áhugaverð bók í smíðum: Örnefni í Flatey

Flatey úr suðri

Gunnar Sveinsson í Eyjólfshúsi skrifar:
Ævar Petersen sá ágæti fuglasérfræðingur og velunnari Flateyjar hefur til margra ára safnað örnefnum í Flatey samhliða því að huga fuglalífi.  Hann hefur nú tekið saman stórmerkilega bók um þetta annað áhugamál sitt sem vonast er til að komi út fljótlega.

Fjölmörg örnefni í þessari bók þykist ég vita að hinn venjulegi Flateyingur viti ekkert um eða hafi heyrt;

Miðbæjarhólar og Kirkjuhólar eru líklega mjög gömul örnefni.  Miðbæjarnafnið tengist samnefndum bæ  sem þegar er getið um aldamótin 1600 en byggð á þessum stað er talin eiga rætur allt aftur til Landnáms.  Miðbær mun hafa verið notaður allt til 1873 en útihúsin lengur.  Jón Sigurðsson (1863 – 1944) notaði þannig einn kofann til þess að reykja rauðmaga uns hann brann.  Tvær flatar hellur liggja hlið við hlið í grassverðinum rétt innan við kirkjugarðinn.  Má telja sennilegt að þær hafi verið við útidyrnar á Miðbæ.

Sumarið 1989 grófu bandarískir fornleifafræðingar í öskuhauginn frá Miðbæ til að kanna fæðuleifar liðinna kynslóða.  Samkvæmt aldursgreiningu á jarðvegi og beinaleifum grófu þeir niður til um 1300.  Þá var enn alllangt eftir niður á haugbotn svo byggð á þessum stað er ævaforn.

Í sögum af Eggert „betri“ Ólafssyni (1729 – 1819), í frásögn Herdísar skáldkonu Andrésdóttir (1858 – 1939), eru Hólarnir nefndir sitt á hvað Kirkjuhólar eða Miðbæjarhólar.  Þeir hafa líklega gengið jöfnum höndum undir báðum nöfnum, a.m.k. á seinni hluta 19. aldar og fram á þá tuttugustu.  Eggert „betri“ var með ríkustu mönnum sinnar samtíðar, mikill mannvinur, en Eggert skáld og náttúrufræðingur (1726 – 1768) var kallaður sá „verri“.  Í eftirfarandi frásögn birtist fyrirboðinn að velgengi Eggerts „betri“:

„Það var eitt sinn, er Eggert var eitthvað 10 eða 12 vetra gamall (um 1740), að hann var að leikum með öðrum drengjum í Flatey; voru þeir uppi á svokölluðum Kirkjuhólum eða Miðbæjarhólum.  Segir þá Eggert við einn drenginn: Mig dreymdi skrítinn draum í nótt; mér þótti við vera staddir hér allir drengirnir, þar sem við erum staddir nú.  Fann þá einhver þeirra upp á því, að reyna að klifra upp á kirkjuþakið.  Kirkjan var þá þar skammt frá.  Fórum við þá hinir drengirnir á eftir honum og reyndum það sama.  Þótti mér allir hrapa niður, er þeir voru komnir miðja leið.  Það var ég einn, sem komst upp á kirkjuþakið.  Þóttist ég litast um, og þótti þaðan fögur útsýn yfir Breiðafjörð.  Kirkjan var hrörleg torfkirkja.  Óskaði ég þá, að ég væri orðinn svo mikill maður, að ég gæti byggt fallega kirkju þar.  Við það hrökk ég upp“ (Rauðskinna III, bls 49).  Eggert settist að í Hergilsey, sem þá hafði verið í óbyggð um margar aldir en nytjuð frá Flatey.  Meðal þess sem hann lét gera var að reisa timburkirkju í Flatey.

 Þessi frásögn er aðeins ein af þeim fjölmörgu sem prýða bók Ævars Petersen um örnefni í Flatey.  Annað dæmi um örnefni í Flatey sem nú eru á fárra vitorði vil ég nefna úr bók Ævars en það eru nöfn gamalla matjurtagarða við Innstapoll;

Hlykkur (matjurtagarður innan við Innstapoll, afmarkaður hlöðnum görðum.  Garðurinn er nú grasi gróinn enda fjölmargir áratugir síðan hann var síðast notaður.

Utan við Innstapoll voru þrír matjurtagarðar, innst Langur sem nú er einnig gróinn upp, þá Erfiður en Mæðir yst og er hann einnig gróinn.  Þessa garða lét Ólafur Sívertsen vinna sem kartöflugarða á tímabilinu 1820 – 1849.  Erfiður er enn notaður sem matjurtagarður frá Læknishúsi.

 Víst má telja að það yrði verulega góður fengur fyrir alla Flateyinga sem og aðra söguþyrsta lesendur að þessi fróðlega og myndskreytta bók verði gefin út sem allra fyrst.  Ég vil skora á félagasamtök Flateyinga, Framfarafélag Flateyjar, Fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju og aðra sem tengjast Flatey og láta sig sögu og menningu Flateyjar varða að stuðla að útkomu þessarar bókar. Veit ég að Örn Sturluson hefur aðstoðað Ævar vegna þessarar söfnunar, auk margra annarra Flateyinga.  Ég er þess fullviss að fjölmargir myndu vilja tryggja útgáfu bókarinnar með fyrirfram kaupum á henni.

Ofangreind lýsing Ævars á uppgreftri bandarísku fornleifafræðingana 1989 í öskuhauginn frá Miðbæ leiðir hugann að því þegar grafið var fyrir malarveginum frá vegi upp að kirkju nú í haust.  Þar var farið í útkant þessa öskuhaugs sem vitað er að hefur verið raskað áður fyrr og komu nú upp all mikið af beinum og beinaleifum. Fullt samráð var haft við Minjastofnun og embætti Minjavarðar Vesturlands sem hefur aðsetur í Stykkishólmi um framkvæmd þessa og lagningu stígsins.  Þessi staðreynd segir okkur að fornminjar er víða að finna í Flatey.  Gaman væri að merkja og setja upp smekkleg og fræðandi skilti við eitthvað af þessum minjum þannig að allir, ferðamenn sem og Flateyingar fái vitneskju um fortíð Flateyjar og þær minjar sem hér eru. Byrja mætti að merkja staði eins og Klausturhólasteininn, Miðbæ, Silfurgarð,  Stóragarð, Þýskuvör o.fl.  Þykist ég vita að Framfarafélagið vilji hafa forgöngu um þetta góða mál.

(Örnefnaskrá/bók Ævars Petersen er enn óútkomin en er nánast tilbúin til útgáfu í tölvu. Bókina prýðir mikill fjöldi ljósmynda af stöðum sem örnefni og sagnir eru tengdir. Vona ég að ekki þurfi að bíða alltof lengi eftir þessari góðu og fróðlegu bók)

Ritað í febrúar 2014

Gunnar Sveinson

Eyjólfshúsi, Flatey, gunnarsv@landspitali.is

Flatey bókahornið 4 – Örnefni í Flatey