Fréttir

Aðalfundur Framfarafélagsins – nýr formaður kosinn!

Kirkjustígur1

Aðalfundur Framfarafélags Flateyjar var haldinn 8. mars sl. Á fundinum var kosinn nýr formaður – Gyða Steinsdóttir í Sunnuhvoli,  fyrrverandi bæjarstjóri í Stykkishólmi. Aðrir í stjórn eru Hörður Gunnarsson, Vesturbúðum – Svava Sigurðardóttir, Eyjólfshúsi – Kristín Ingimarsdóttir, Sólbakka og Kjartan Þór Ragnarsson, Sólheimum. Úr stjórn gengu Ingveldur Eyþórsdóttir og Albert Páll Sigurðsson. Ritnefnd óskar nýrri stjórn  velfarnaðar í starfi – af mörgu er að taka.

Á aðalfundinum voru samþykktar eftirfarandi ályktanir:

Heimasíða Framfarafélagsins;
Undir þessum lið fundarins var tekin til umræðu málefni heimasíðu Framfara-félagsins.  Ritnefnd skýrði frá því að nauðsynlegt er að uppfæra heimasíðuna enda voru fyrstu drög síðunnar og uppbygging lögð fram fyrir fimm árum.
Ný útgáfa auðveldar innsetningu texta og efnis inn á heimasíðu.  Sama gildir um myndabanka, ný útgáfa gefur fleiri möguleika varðandi innsetningu mynda og myndasafna s.s. við skýringar, fléttingu og koma á framfæri athugasemdum um einstakar myndir.
Því er lagt til að keypt yrði ný uppfærsla auk netsölukerfis fyrir ýmsar söluvörur á vegum fjáröflunarnefndar Flateyjarkirkju og annara aðila sem hyggjast selja vörur sínar í gegnum heimasíðuna.  Heimasíðugerðarfyrirtækið Emstrur hefur haldið utan um tæknihlið síðunnar og hefur áætlað að kostnaður við þessa uppfærslu og endurbætur muni nema rúmlega 400 þús sem nauðsynlegt verður að afla til að ljúka þessu bráðnauðsynlega verki.
Nokkur umræða varð á aðalfundinum um heimasíðu Framfarafélagsins og hið mikilvæga hlutverk hennar í upplýsingamiðlun Flateyjar.  Rætt var um fjáröflun frá ýmsum styrktaraðilum, sölu auglýsinga inn á heimasíðuna, tengingu heimasíðunnar við samstarfsaðila og miðlun upplýsinga.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun;
Fundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnar Framfarafélagsins að hún beiti sér fyrir fjársöfnun til uppfærslu heimasíðu félagsins.  Einn liðurinn í slíkri fjársöfnun er að leita til húseigenda í Flatey um ákveðið frjálst fjárframlag til slíkrar uppfærslu og enn fremur verði leitað til fyrirtækja og annara  velunnara Flateyjar um framlag.
Samþykkt samhljóða.

Flatey vistvæn og græn eyja
Vinnuhópur um vistvæna Flatey gerði grein þeirri vinnu sem verið hefur í gangi varðandi framtíðarsýn um vistvæna Flatey. Í janúar sl. var haldið íbúaþing sem sótt var af yfir 20 manns, á þinginu voru kynntar af Arkís aðferðir við að greina stöðu Flateyjar í vistvænu samhengi með s.k. BREEAM kerfi (sjá nánar http://flatey.com/frettir/vistvaen_flatey_ibuathing).
Ákveðið var á íbúaþinginu að vinnuhópur með félögum úr Framfarafélaginu ynnu með Arkís að draga fram vistvænar áherslur fyrir Flatey sem yrði síðan grunnur að ítarlegri úttekt.  Sú vinna felst í að greina innviði Flateyjar og gildandi skipulag hennar með BREEAM kerfinu. Afraksturinn verður í formi greinargerðar sem gefur mynd af því hvernig staðan er í dag og hvernig hún væri ef farið væri í ákveðnar aðgerðir með vistvænni Flatey að leiðarljósi.
Stuðst yrði við fyrirliggjandi aðal – og deiliskipulag fyrir eyjuna og þau grunngögn sem fyrir liggja. Verkefnið er í samvinnu við Reykhólahrepp og Landmótun sem eru skipulagshöfundar í Flatey, hafa unnið bæði aðal- og deiliskipulag fyrir eyjuna.

Fundurinn ályktar að áfram verði haldið með verkefnið „Vistvæn Flatey“ og Framfarafélag Flateyjar leiði það til farsælla lykta með samstarfsaðilum sínum, Flateyjarveitum, Landmótun, Arkís og Reykhólahreppi.
Samþykkt samhljóða.

Smábátahöfn í Flatey
Lögð var fram eftirfarandi ályktun um smábátahöfn í Flatey :
Aðalfundur Framfarafélagsins haldinn 8. apríl 2014 skorar á Reykhólahrepp að koma nýrri smábátahöfn í Flatey inn á samgönguáætlun.  Aðstaða fyrir minni báta er bágborin í Flatey en með auknum fjölda ferðamanna eru ýmis sóknarfæri til að bæta þjónustu við þá t.d. með útsýnisferðum en einnig hamlar þessi aðstaða í dag þjónustu við Inneyjar.  Til viðbótar er sífellt að bætast við bátaflota heimamanna og er aðstaða til sjósóknar erfið við núverandi aðstæður.

Í greinagerð með ályktunni segir svo;  Á liðnum árum hefur mikil vinna verið lögð í undirbúning byggingar smábátahafnar í Flatey.  Í framhaldi af skýrslu Siglingastofnunar um staðsetningu smábátahafnar og gerð forhönnunar hefur verið samþykkt nýtt aðalskipulag og deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir smábátahöfn í Innstapolli við Hólsbúðarvog.

Þrátt fyrir töluverða eftirgangstilburði af hálfu Framfarafélagsins og Reykhólahrepps hefur möguleg bygging smábátahafnar verið stopp og er það fullkannað að því verður ekki hreyft nema að framkvæmdin komist inn á samgönguáætlun.  Forsenda þess að hafnir komist inn á slíka áætlun er að til sé reglugerð um höfnina og gjaldskrá.  Slíkt er fyrir hendi í Flatey, en á vef Samgöngustofu – Siglingastofnunar má finna reglugerð fyrir höfnina í Flatey;  Hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags; Flatey á Breiðafirði, 175/1947, með br. 47/1951.
Framlögð ályktun var samþykkt samhljóða.