Verslun og útgerð

Landnámsmaðurinn Þrándur mjóbeinn nam Flatey og er hún talin hafa verið í byggð síðan.
Flatey var mikill verslunarstaður þar til verslunareinokunin var lögleidd, árið 1602. Þar versluðu m.a. Hollendingar, Englendingar og Þjóðverjar.
Árið 1777 varð Flatey löggiltur verslunarstaður og fór þá verslun að blómstra að nýju. Flatey varð miðstöð Breiðafjarðarsvæðisins, hélt hún því hlutverki fram á miðja 20. öld.

Guðmundur Scheving hóf fyrstur manna þilskipaútgerð í Flatey í byrjun 19. aldar, var hann meðal brautryðjenda þilskipaútgerðar á Íslandi. Þar með hófst mesti blómatími eyjarinnar; skútuöldin. Björn Sigurðsson rak útgerð og verslun til byrjun 20. aldar veitti eyjamönnum þónokkra atvinnu. Á eftir honum kom Guðmundur Bergsteinsson sem veitti Flateyingum hvað mesta atvinnu með útgerð sinni og verslun. Fólki fjölgaði til muna á skútuöldinni, og á milli 1910-1920 voru Flateyingar flestir eða rúmlega 200.

Kaupfélag var starfandi í Flatey frá árinu 1920-1953 og hafði það stórt verslunarumdæmi.

Reynt var að reisa við atvinnuveg eyjarinnar milli 1940-1950 með útgerð og frystihúsi en þær áætlanir gengu illa og í byrjun 6. áratugarins var starfseminni hætt. Upp frá því fækkaði Flateyingum til muna því litla atvinnu var að hafa.

Eyjabúskapurinn

Fyrir 17. öld var Flatey einbýl en það breyttist á tímum einokunnar. Þá skiptist eyjan niður í smærri og fleiri býli og hélst það fram til 1967. Þá urðu býlin tvö og eru enn.

Flatey var bændasamfélag sem tók mið af sjónum. Bændur voru með kýr og kindur, en aðal undirstaða eyjabúskapsins voru hlunnindin; sel- og fiskveiðar, fugl- dún- og eggjatekja. Nægur matur var í eyjunni en það krafðist erfiðisvinnu að afla hans.

Flateyjarkirkja

Flatey hefur verið kirkjustaður frá fornu fari og sá eini á Breiðafjarðareyjum sem vitað er um. Munkaklaustur var í Flatey á 12. öld, síðar var það flutt að Helgarfelli á Snæfellsnesi. Talið er að klaustrið hafi staðið austan við Klausturhóla.

Núverandi kirkja er steinsteypt, hún var vígð árið 1926 og er opin yfir sumartímann. Hún tók við af eldri timburkirkju sem stóð í kirkjugarðinum. Kirkjan er skreytt loftmyndum og altaristöflu eftir Baltasar Samper og Kristjönu Samper konu hans. Myndefnið er sótt í eyjabúskapinn og mannlíf á vestur Breiðafirði. Á altaristöflunni má m.a. sjá Jesú í lopapeysu með bryggjuna í Flatey í baksýn.

Söfnuður kirkjunnar var áður stór en í dag er hann mjög fámennur. Söfnunarbaukur er í anddyri kirkjunnar og er því fé sem safnast  varið í viðhald á kirkjunni, þitt framlag skiptir máli.Vinsamlegast gangið vel um kirkjuna.

Menningarstarf

Ólafur Sívertsen var prestur í Flatey frá 1823 og stofnaði Flateyjar framfarastofnun. Í upphafi var Framfarastofnunin aðeins bókasafn en síðar varð starfsemin á fleiri sviðum. Þar má helst nefna tímaritið Gest Vestfirðing, búnaðarskóla í Flatey og ritstörf Gísla Konráðssonar. Þegar Ólafur lést árið 1860 átti bókasafnið 1140 bækur. Brynjólfur Benedictsen, tengdasonur Guðmundar Scheving, lét reisa hús yfir bókasafnið árið 1864, það var fyrsta bókasafnshúsið á landinu (15). Flateyjarbók var geymd í Flatey í nokkrar aldir, eða þar til Jón Finnsson færði Brynjólfi biskupi bókina árið 1647. Ljósprent af bókinni er til sýnis í Bókhlöðunni.

Listamenn í Flatey

Í gegnum tíðina hafa margir listamenn sótt innblástur verka sinna í Flatey. Þar á meðal:  Matthías Jochumsson, Sigurður Breiðfjörð, Herdís og Ólína Andrésdætur, Þorvaldur Thoroddsen, Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson, Sigvaldi Kaldalóns, Jökull Jakobsson, Nína Björk og Jón Gunnar Árnason. Einnig hefur Flatey verið vinsæll tökustaður fyrir kvikmyndir, þar má m.a. nefna vinsælu þættina um Nonna og Manna, Ungfrúna góðu og húsið og nú síðast kvikmynd Baltasars; Brúðgumann.

Nútíminn

Í dag er búið á tveimur  býlum í Flatey, Krákuvör og Læknishúsi. Bændur eru með kindur og hænsni, sækja sjóinn og nýta hlunnindin eins og eyjabændur hafa gert í aldanna rás. Í þorpinu býr enginn lengur en eigendur húsanna nýta þau sem sumarhús. Húsin í þorpinu eru flest frá blómatíma eyjarinnar í lok 19. aldar og byrjun 20. aldar. Þorpið er ein heildstæðasta þorpsmynd sem varðveist hefur á Íslandi. Húsunum er vel við haldið og er eins og tíminn hafi staðið í stað frá upphafi 20. aldar. Flatey er nú eina eyjan á Breiðafirði sem er í byggð allt árið.